Bretar halda fish and chips menningu sinni hátt á lofti og velja árlega besta staðinn sem selur þennan þjóðarrétt þeirra. The Atlantic Fast Food fish-and-chips staðurinn í Glasgow í Skotlandi varð fyrir valinu að þessu sinni eftir harða samkeppni þátttakenda.
Fjöldi veitingastaða tók þátt í keppninni í ár en þeir þurfa að standast ítarleg próf og rannsóknir dómnefndar. Meðal annars er leitað álits viðskiptavina, staðirnir skoðaðir í krók og kring og réttirnir smakkaðir. Síðast en ekki síst eru gæði hráefnisins könnuð. Oftar en ekki er um að ræða fisk frá Íslandi.
Þetta er í þriðja árið í röð sem skoskur staður hreppir vinninginn en keppnin hefur verið haldin í 22 ár.
Forsvarsmenn keppninnar segja að fish and chips staðir séu vel í stakk búnir að blómstra þar sem þeir bjóði gæðavöru á góðu verði. Þrátt fyrir efnahagskreppuna voru seldar 183 milljónir af fish and chips réttum í Bretlandi á síðasta ári. Í ár fagna Bretar því að 150 ár eru liðin frá því fyrsti fish and chips staðurinn var opnaður.