Bretland er stærsti kaupandi íslenskra sjávarfurða og hefur verið í því hlutverki síðustu áratugi. Hins vegar fer vægi breska markaðarins sífellt minnkandi, eins og tölur sýna glöggt.
Útfluttar sjávarafurðir til Bretlands árið 2017 seldust fyrir um 30,6 milljarða króna, en það gerir um 15,5% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða sama ár. Til samanburðar var það land sem kom næst á eftir, Frakkland, með innflutning upp á 22,3 milljarða króna sem gerir 11,3% af heildarútflutningi frá landinu. Í þriðja sæti var svo Spánn með 19,2 milljarða króna sem gerir 9,7%.
Vægið snarminnkað
Þessar tölur voru birtar í Hagsjá Landsbanka Íslands í liðinni viku og sýna hversu markaðir fyrir íslenskt sjávarfang eru hvikulir og taka sífelldum breytingum.
Þar segir að þrátt fyrir að breski markaðurinn sé enn mikilvægasti kaupandi íslenskra sjávarafurða dregur mjög saman með öðrum stórum kaupendum sjávarafurða. Breytingin var langmest á árabilinu 2007 til 2011 en þá fór vægi sjávarafurða til Bretlands úr 27,1% niður í 17,8% en vægið hafði verið að meðaltali 17% á því árabili en þó leitað áfram niður á við.
Vægi breska markaðarins hefur aldrei mælst lægra en árið 2017 þegar það var 15,5%. Mismunur á vægi Breta og þeirrar þjóðar sem kemur næst á eftir hefur heldur aldrei verið minni en var árið 2017 en á því ári nam mismunur á vægi Bretlands og Frakklands 4,2 prósentustigum.
Hærra verð á öðrum mörkuðum
Í Hagsjánni segir einnig að hluti af þessari þróun megi að töluverðu leyti rekja til hærra verðs á öðrum mörkuðum. Þannig hefur útflutningur leitað frekar til þeirra landa sem greitt hafa hærra verð á kíló en Bretland. Bretland var langstærsti markaðurinn fyrir útflutning á ýsu en árið 2007 fór 71,8% af öllum ýsuútflutningi Íslands til Bretlands. Árið 2011 var þetta hlutfall komið niður í 61,3% og hafði því lækkað um 10,4 prósentustig.
Næststærsti markaðurinn á sama tíma voru Bandaríkin með 18% hlutdeild. Á því ári var kílóverðið í Bandaríkjunum 739 krónur á hvert kíló á ísaðri ýsu frá Íslandi. Verðið á Bretlandi var hins vegar 229 kr./kg eða rúmlega þrefalt lægra.
„Á tímabilinu frá 2007 til 2011 og reyndar allt til 2017 var verðið í Bandaríkjunum mun hærra en á Bretlandi á hverju einasta ári. Þessi verðmismunur hefur leitt til þess að hlutdeild Bretlands á ísaðri ýsu var komið niður í 29% árið 2017 en 47% í Bandaríkjunum,“ segir í Hagsjánni.
Svipuð þróun í þorski
Sömu sögu má segja af ísuðum þorski. Þar hefur hlutdeild Bretlands farið úr 53% árið 2007 og niður í 12% árið 2017 og má einnig rekja það til ósamkeppnishæfs verðs í Bretlandi.
„Hér er rétt að benda á að fall pundsins í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit hefur vissulega lækkað verðið á Bretlandi í krónum talið. En sé litið á árin fyrir Brexit var kílóverðið á Bretlandi samt umtalsvert lægra en í Frakklandi, Bandaríkjunum og Belgíu,“ segir í Hagsjánni.
Frekari samdrætti spáð
Miðað við þennan verðmismun á bæði ísaðri ýsu og ísuðum þorski og sífellt minnkandi hlutdeildar Bretlands í þeim tegundum er líklegt að þróunin verði áfram í sömu átt, þ.e. að hlutdeild Bretlands í þessum afurðaflokkum haldi áfram að dragast saman á næstu árum, er sú ályktun sem er dregin í Hagsjánni en í samhengi er nefnt að heildarútflutningur sjávarafurða á seinasta ári var tæpir 200 milljarðar króna, sem er um 16% af öllum útflutningi.