Rúmlega þriðjungur humarkvótans á yfirstandandi fiskveiðiári er óveiddur og kann svo að fara að hluti kvótans brenni inni vegna skertra geymsluréttinda við næstu kvótaáramót.
,,Við erum í hópi þeirra fyrirtækja sem eiga stóran hluta humarkvóta síns óveiddan nú þegar fáar vikur eru eftir af fiskveiðiárinu. Fyrir því eru góðar og gildar ástæður,” segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í viðtali í nýjustu Fiskifréttum.
Fram kemur í máli hans að vegna lágs verðs á humri á síðasta ári hafi þeir kosið að fara sér hægt í veiðum og geyma hluta kvótans þar til markaðsástand batnaði. Í vetur hafi sjávarútvegsráðherra svo ákveðið að skerða geymslurétt kvóta milli ára úr 33% í 10%.
,,Þetta hefði ekki átt að koma að sök ef humarveiðin í sumar hefði verið eins góð og undanfarin sumur, en nú bregður svo við að aflabrögðin undanfarinn mánuð hafa verið mjög döpur,” segir Sigurgeir Brynjar og telur hættu á að hluti humarkvótans detti dauður niður bæði hjá sínu fyrirtæki og öðrum útgerðum vegna skerðingar á geymslurétti.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.