Ingunni AK og Lundey NS, skip HB Granda, héldu til loðnuveiða sl. föstudagskvöld. Skipin hófu leit á Vestjarðamiðum en þar varð ekki vart við annað en smáloðnu. Í framhaldinu var leitað að loðnu austur um í áttina að Kolbeinseyjarhryggnum en án árangurs, að því er fram kemur á vef HB Granda.
Slæmt veður hefur komið í veg fyrir loðnuveiðar í Grænlandssundi en að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, halda Ingunn og Lundey nú sjó um 120 sjómílur NNA af Hornbjargi. Vart hefur orðið við loðnu á þessum slóðum og er þess nú aðeins beðið að veðrið gangi niður þannig að hægt verði að hefja veiðar.