Börkur NK kom til Neskaupstaðar á páskadagsmorgun með fullfermi eða 3.250 tonn af kolmunna.
„Það hefur verið mikill kraftur í veiðinni að undanförnu. Við vorum í rétt rúma tvö sólarhringa á miðunum að fá fullfermi. Aflinn fékkst í sex stuttum holum en það voru 500-600 tonn í holi. Það voru um 100 tonn á tímann en það gerist vart betra. Veiðin fer fram suður af Færeyjum, á Gráa svæðinu svonefnda. Það er alltaf að ganga fiskur þarna inn og hann er býsna þéttur þannig að það mokveiðist. Þetta var túr númer þrjú hjá okkur í þessari veiðitörn og við höldum í fjórða túrinn strax að löndun lokinni. Þetta er veisla. Svo verður að hafa það í huga að þetta er úrvalshráefni fyrir vinnsluna. Það tekur stuttan tíma að veiða og fiskurinn er vel kældur um borð í skipunum en hins vegar er ekki mikið lýsi í kolmunnanum um þessar mundir,” sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Barði NK líka með fullfermi
Barði NK kom til Seyðisfjarðar að morgni annars í páskum og var Þorkell Pétursson skipstjóri hinn hressasti þegar rætt var við hann. „Við erum með fullfermi eða rúm 2.000 tonn sem fengust í sex stuttum holum. Það er óhætt að segja að kolmunnaveiðarnar gangi eins og í sögu enda er einungis stoppað í um tvo sólarhringa á miðunum. Það voru ekki mörg skip á miðunum núna enda eru þau mikið á ferðinni þegar veiðin er svona góð. Það er ekki nóg með að vel veiðist heldur hefur veðrið verið einstaklega gott á miðunum að undanförnu. Í sannleika sagt þá getur þetta vart verið mikið betra,” sagði Þorkell.