Árið sem nú er senn á enda hefur verið einstaklega gjöfult fyrir skipverja á uppsjávarveiðiskipinu Berki NK og hafa þeir enn og aftur bætt aflaverðmæti sitt, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Börkur NK landaði rúmum 800 tonnum af loðnu í Neskaupstað í vikunni og er aflaverðmæti skipsins á árinu komið yfir 1.900 milljónir króna sem er 570 milljónum betra en á árinu 2009 sem einnig var metár skipsins.

Börkur NK hefur veitt um 55 þúsund tonn á árinu og skiptist aflinn þannig að norsk-íslensk síld er ríflega 14.200 tonn, kolmunni 12.500 tonn, loðna 12.200 tonn, Íslandssíld 9.900 tonn og makríll 6.000 tonn. Langstærsti hluti aflans hefur farið til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf.