Börkur NK er á leið til Neskaupstaðar með 1250 tonn af íslenskri sumargotssíld. Aflinn fékkst í Kolluálnum vestur af landinu í fjórum holum, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.
Skipið er væntanlegt til hafnar aðfaranótt föstudags og er þessi farmur áreiðanlega lokafarmur þessarar síldarvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum. Heimasíðan ræddi við Óla Gunnar Guðnason stýrimann um klukkan fjögur í dag en þá var skipið að nálgast Látrabjarg. Siglt verður norður fyrir land vegna þess að spáð er betra veðri þar en fyrir sunnan landið.