Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur II, hefur fengið nafnið Barði og einkennisstafina NK 120.
Frá þessu segir á heimsíðu Síldarvinnslunnar en fyrsta skipið sem Síldarvinnslan eignaðist bar einmitt þetta nafn og þessa einkennisstafi. Alls hafa fimm skip í eigu Síldarvinnslunnar borið nafnið Barði þannig að nú bætist það sjötta í þann hóp.
Á heimasíðunni er skemmtileg frásögn um skipin
sem þetta nafn hafa borið, til upprifjunar fyrir þá sem áhuga hafa á sögunni.
Einnig mátti lesa um þessa nafnabreytingu á heimasíðu sjómannsins og ljósmyndarans Þorgeirs Baldurssonar á Akureyri, en þar sem stærsta loðnuvertíð í langan tíma stendur fyrir dyrum er ljóst að útgerðir munu beita öllum þeim atvinnutækjum sem fyrirliggjandi eru, enda veitir ekki af veiðigetunni fyrir þau tæplega 700.000 tonn af loðnu sem íslenskum skipum er heimilt að veiða.