Borgarstjórn samþykkti fyrir skemmstu að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að finna annan stað fyrir veiðiskip Hvals hf. en áratugum saman hafa þau haft vetursetu við Ægisgarð í gömlu höfninni í Reykjavík. Gunnar Tryggvason hafnarstjóri segir formlegt erindi ekki hafa borist en á von á því innan tíðar. Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi segir að vel yrði tekið á móti skipunum á Akranesi en þar séu þó ekki til staðar þeir innviðir sem nauðsynlegir eru skipunum. Allt eins gæti farið að Hvalur ehf. leggi sínum skipum við höfn utan Faxaflóahafnasamlagsins. Það gæti reynst hvalreki á fjörur annarra hafna.
Innviðirnar sem Haraldur nefnir er heitavatnslögn sem er á Ægisgarði og hefur löngum nýst til upphitunar á hvalveiðiskipunum að veturlagi og komið í veg fyrir saggamyndun í skipunum.
„Það væri hægt að færa skipin á aðrar hafnir í eigu Faxaflóahafna og nefni ég þar til dæmis Sundahöfn og Akranes. En um það hefur svo sem ekki verið rætt. Við bíðum eftir að erindið berist formlega en það er ekkert mál af hálfu Faxaflóahafna að taka þetta til athugunar,“ segir Gunnar.
Hví ekki til Hafnarfjarðar?
Hafnirnar sem tilheyra Faxaflóahöfnum er Reykjavíkurhöfn, Grundartangi og Akranes. Augu margra beinast að Akranesi sem höfn fyrir hvalveiðiskipin, ekki síst vegna plássleysis í Sundahöfn og stórskipaumferðar á Grundatanga. En ekkert hefur heyrst í forsvarsmönnum Hvals ehf. vegna þessa. Þeir gætu auðvitað átt allt aðra kosti í stöðunni, eins og til dæmis að leita til hafna utan Faxaflóahafnasamlagsins. Hafnarfjarðarhöfn gæti hugsanlega verið valkostur því ekki er mikið lengra á miðin eða í hvalvinnsluna sjálfa í Hvalfirði þaðan en frá Reykjavík.
Þó gæti farið að losna um legupláss í Sundahöfn því Gunnar segir að útlit sé fyrir að aflögðu varðskipin Týr og Ægir fari þaðan innan tíðar. Þau voru smíðuð árin 1975 og 1968 og voru seld félaginu Fagri ehf. fyrir 51 milljón kr. í fyrra.
Það pláss verður þó fljótt nýtt í annað því Gunnar segir að stefnt sé að því að framtíðarlægi dráttarbáta Faxaflóahafna, þ.e. Magna, Leynis og Haka, verði þar sem gömlu varðskipin eru núna í Sundahöfn og líklega strax í sumar.
Gufuvélar í skipum á áttræðisaldri
Skipin tvö sem gerð verða út á hvalveiðar í sumar, Hvalur 8 og Hvalur 9, voru smíðuð 1948 og 1952 í Noreg. Í Hvalfirði liggja upp í fjöru tvö önnur hvalskip, Hvalur 5 og Hvalur 6, sem nýtt eru í varahluti. Þetta eru einu skráðu skipin í íslenska skipaflotanum sem eru með gufuvélar. Gufukatlarnir eru hitaðir upp með olíu og vélarnar skila um 2.000 hestafla orku. Sagt hefur verið að gufuvélar séu ákjósanlegar í hvalveiðiskip vegna minni vélarhljóða. Sérfróðir segja þó að þetta sé þjóðsaga, vissulega berist minna af hátíðnihljóðum frá gufuknúnum vélum en vélarglamrið er samt. Japanir hafi enda stundað hvalveiðar með góðum árangri á hefðbundnum olíuknúnum skipum. Þó má geta þess að Norðmenn hafa í auknum mæli tekið upp nýorkuskip sem skipta yfir á rafmagn þegar hrefnuveiðar eru stundaðar einmitt vegna þess að þeir telja síður koma styggð að dýrunum þegar vélarhljóð eru í lágmarki.