Sú þróun hefur orðið síðustu árin að neytendur innan Evrópusambandsins kaupa minna af fiski en áður en sala sjávarfurða hefur hins vegar aukist að verðmætum á sama tíma. Þetta kemur fram í nýrri fiskmarkaðsskýrslu sem ESB lætur gera reglulega.
Fiskneysla í ESB-ríkjunum hefur frá árinu 2008 minnkað um 2 kíló á mann á ári þrátt fyrir stöðugan áróður um að fiskur sé góður fyrir heilsu manna. Um þrír fjórðu af þeim fiski sem neytt er innan ESB koma úr veiðum en einn fjórði úr eldi. Vinsælustu fisktegundirnar eru túnfiskur, þorskur og lax og nemur neyslan 2 kílóum á ári að meðaltali á hvert mannsbarn af sérhverri þessara tegunda.
ESB reiðir sig mjög á innflutning á fiski og hefur hann aukist stöðugt frá árinu 2009. Verðmæti innflutningsins nam 21 milljarði evra á síðasta ári eða jafnvirði um þrjú þúsund milljarða íslenskra króna. ESB flytur inn að minnsta kosti fjórum sinnum meira af fiski en kjöti í verðmætum mælt.
Stærsta viðskiptaland ESB með sjávarafurðir er Noregur en frá honum kemur fjórðungur af öllum innfluttum sjávarafurðum til ESB-landanna. Norski fiskurinn er fyrst og fremst lax og þorskur. Útflutningur Norðmanna á fiskmeti til ESB hefur aukist um 70% frá árinu 2009.
Evrópusambandið er líka stór útflytjandi á fiski og nam hann tveimur milljónum tonna árið 2014 að andvirði 4,3 milljarða evra eða sem svarar rúmlega 600 milljarða íslenskra króna.
Þá kemur fram í skýrslunni að verð á sjávarafurðum í smásölu hafi hækkað stöðugt á undanförnum árum og hækkað meira en verð á kjöti. Eigi að síður hafi hækkunin verið hægari eftir árið 2012.
Hægt er að skoða skýrsluna í heild HÉR