Netarallið fer vel af stað fyrir norðan og lofar góðu um framhaldið. Boltaþorskar veiddust í Húnaflóa. Í byrjun vikunnar var rallið þar um það bil hálfnað, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Sex bátar taka þátt í Netaralli Harannsóknastofnunar hringinn í kringum landið. Þorleifur EA frá Grímsey kannar svæðið úti fyrir Norðurlandi. Þeir á Þorleifi EA höfðu fengið um 40 tonn í fjórum lögnum, einni á skjálftasvæðinu við Grímsey og þremur á Húnaflóasvæðinu. Mestur afli fékkst í eina lögn nálægt Skagaströnd, eða um 14 tonn. Það var allt boltafiskur, mikið 11 til 12 kíló að þyngd.
Á myndinni hér að ofan hampar áhöfnin á Þorleifi EA risaþorski sem veiddist í Húnaflóa. Ekki er þó alveg ljóst hvað þessi þorskur er þungur því vigtin, sem rannsóknamenn Hafró höfðu með sér um borð, tekur aðeins fisk sem er 30 kíló eða léttari. Þessi þorskur sprengdi skalann og er eitthvað yfir 30 kílóin að þyngd.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.