Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir fullreynt með afnám svæðaskiptinga í strandveiðum. Fyrirkomulagi strandveiða var breytt árið 2019 þannig að veiðiheimildum yrði ekki skipt niður á svæði eins og áður var.
„Þetta fyrirkomulag er að mínum dómi nú fullreynt,“ segir Svandís í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. „Í þau fjögur sumur sem þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft þá hefur þurft að stöðva veiðarnar áður en að tímabilið klárast í tvö skipti og nú að öllum líkindum gerist það í þriðja skipti og enn fyrr en áður.“
Hún segist ætla að leggja fram frumvarp í haust sem taki svæðaskiptingu upp á ný.
„Ég hef talað við fjölda strandveiðisjómanna sem hafa gagnrýnt þetta og lýst þessu fyrirkomulagi sem ósanngjörnu. Sumir þeirra bentu á þessa hættu í upphafi. Þá hefur einnig verið bent á að ef þessu verður muni bátar halda áfram að færast frá þeim svæðum sem koma illa út úr þessu fyrirkomulagi yfir á það svæði þar sem fiskgengd er með þeim hætti að hagkvæmt er að stunda þær frá upphafi tímabils. Þannig sé fyrirkomulagið farið að vinna gegn þeim byggðum sem hún átti að treysta.“
Hún greinir enn fremur frá því að nú í sumar muni hún „ráðstafa því sem fékkst af skiptimörkuðum fyrir makríl til strandveiða, sem mun lengja þann tíma sem veiðar geta staðið. Auk þess að auðvelda að halda til annarra veiða eftir að strandveiðipotturinn er tómur.“