Norski togarinn Atlantic Star er eitt af þremur skipum sem tekur þátt í prófunum á nýrri tækni sem á að auka til muna öryggi áhafnar. Tæknibúnaðurinn stuðlar að því að skipstjórinn hefur alltaf fullkomna yfirsýn hvar öll áhöfnin er stödd í skipinu. Þetta stuðlar að auknu öryggi, ekki síst ef eldur kviknar í skipi.
Búnaðurinn er þróaður af fyrirtækinu Scanreach í Björgvin.
„Ef þú ert skipstjóri gagnast það mjög að vita hvar í skipinu allir í áhöfninni eru,“ segir Arild Sæle frá Scanreach.
Sæle var sjómaður og er stofnandi og stærsti eigandi Scanreach.
Búnaðurinn sem fyrirtækið hefur þróað er í grófum dráttur sendari og móttakari. Allir í áhöfn hafa sinn eigin sendi áfastan við líkama sinn. Sendirinn er eins og er eins og úr eða armband en fyrirtækið vinnur að þróun annars konar sendis sem verður hægt að festa um ökkla eða háls. Móttökurum er komið fyrir á víð og dreif og um skipið.
Móttökurunum er stungið í rafmagnsinnstungur. Þeir senda boð frá sér þráðlaust og ekki þarf að leggja nýjar rafleiðslur. Þetta er svokallað mesh-net sem sendir merki einnig í gegnum þykka stálveggi og stáldyr.
Scanreach segir að um sé að ræða algjöra byltingu í öryggismálum í skipum og sér fyrir sér risavaxin markað fyrir lausnir sínar.
„Búnaðurinn hentar fyrir allar gerðir skipa; fiskiskip, olíu- og gasflutningaskip sem og ferjur og skemmtiferðaskip,“ segir Sæle.
Auk upplýsinga um hvar áhöfnin heldur sig í skipinu senda móttakarnir upplýsingar um gagnlega hluti eins og hitastig, CO2 mengun og súrefnismettun í einstökum rýmum.
Allt eru þetta gagnlegar upplýsingar þegar hættuástand myndast um borð. Upplýsingarnar er einnig hægt að senda í land sem gerir útgerð, björgunaraðilum eða miðstöð Scanreach kleift að taka ákvarðanir um rýmingu, björgunaraðgerðir og annað í þeim dúr.
Grunngerðin
Búnaðurinn er nú til prófunar í þremur skipum; þ.e. rannsóknaskipinu North Sea Giant, togaranum Atlantic Star og einu af skipum norsku strandgæslunnar. Kerfin voru sett upp í þessum skipum í apríl og fyrstu niðurstöður lofa góðu. Scanreach leggur samt áherslu á að um grunngerð búnaðarins sé að ræða. Þótt búnaðurinn hafi mælst vel fyrir hafi verið gerðar athugasemdir við armböndin sem áhöfnin þarf að bera.
„Við höfum fengið þau viðbrögð að armböndin séu of stór og klunnuð og haft truflandi áhrif á vissa þætti í daglegri vinnu. Scanreach er því að þróa nýrri og minni útfærslu af sendum sem einnig verður hægt að festa um ökkla.
Búnaðurinn nýtist ekki einvörðungu ef eldur kemur upp í skipi. Í sendinum er innbyggður hreyfinemi sem greinir mjög hraða eða skyndilega hreyfingu sem lýkur með hreyfingarleysi, eins og eftir fall sem veldur meðvitundarleysi. Búnaðurinn sendir þá viðvörun til skipstjórans.
Sendarnir eru einnig með neyðarhnapp sem notandinn getur stutt á þegar þörf krefur. Sendarnir eru með rafhlöðu sem endist í 2,5 ár og að þeim tíma þarf að skipta þeim út fyrir nýja.
Samkvæmt upplýsingum Scanreach verður búnaðurinn ekki dýr og ætlar fyrirtækið sér að ná upp magnsölu. Búnaðurinn verður reyndar ekki seldur heldur leigður í áskrift og ræðst áskriftarverðið af fjölda koja um borð. Upphafskostnaður verði því lítill. Scanreach telur búnaðinn henta fiskiskipaflotanum sérstaklega.
„Það er því miður sú grein sjómennskunnar þar sem slysin eru flest. Ég hef sjálfur starfað sem sjómaður á fiskiskipi og staðið ölduna í vondum veðrum. Búnaður af þessu tagi er mikið framfaraspor í öryggi.“
Norska tryggingafélagið Møretrygd hefur trú á búnaðinum og tekur þátt í kostnaði við prófanir á grunngerð hans.
„Að okkar mati er þetta ein af mörgum leiðum til að draga úr slysum. Lausnin er snjöll og felur í sér aðferð til að vita hvar í skipinu áhöfnin er og að skipstjóranum sé gert viðvart um óhöpp með sjálfvirkum hætti,“ segir Erling Kløvning einn af yfirmönnum tryggingafélagsins.