Það er ekki þverfótað fyrir aflaskipum í slippnum í Reykjavík þessa dagana. Jökull ÞH 299 er þar nýmálaður og skveraður og við hlið hans frystitogarinn Blængur NK frá Neskaupstað, eini frystitogari Austfirðinga. Jökull ÞH hefur verið gerður út á grálúðunet af GPG Seafood á Húsavík. Skipið hét áður Nanok og var í eigu Arctic Prime Fisheries á Grænlandi. Það er smíðað 1996 og var skipt um aðalvél og nýtt kælikerfi sett í skipið þegar það komst í eigu GPG Seafood.