Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun að lokinni 26 daga veiðiferð. Afli skipsins var 700 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 290 milljónir króna. Aflinn er að mestu karfi og ýsa en einnig þorskur, gulllax, grálúða og ufsi.

Rætt er við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar og var hann spurður hvar hefði verið veitt.

„Við fórum hringinn í þessum túr en mest var verið að veiðum við suðausturlandið og út af Vestfjörðum. Gulllaxinn var síðan veiddur fyrir sunnan land. Við erum sáttir við aflann, en það fór mikill tími í að reyna við ufsa og grálúðu með takmörkuðum árangri. Segja má að hér sé um að ræða hefðbundinn túr sem almennt gekk vel. Við þurftum að vísu að fara einn dag inn á Dalvík til að láta gera við flökunarvélina. Flökunarvélin er hjartað í vinnslunni og hún verður að vera í lagi. Veðrið í túrnum var þokkalegt allan tímann, ekta haustveður og dálítill kaldi en engar stórar brælur,” segir Bjarni Ólafur.

Blængur mun halda til veiða á ný annað kvöld.