Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær að afloknum 39 daga túr. Afli skipsins í túrnum var 1.081 tonn upp úr sjó en millilandað var í Hafnarfirði þann 17. janúar sl.

Aflinn er blandaður, mest er af gullkarfa og ýsu en síðan töluvert af ufsa, þorski og gulllaxi. „Við byrjuðum fyrir austan en meira en helminginn af túrnum vorum við fyrir vestan, á Strandagrunni, í Víkurál og í Kolluál. Veðrið reyndist okkur erfitt og það hrakti okkur austur á ný. Við fórum austur fyrir þann 29. janúar og þar veiddum við helst á Breiðdalsgrunni, á Sléttugrunni og á Digranesflakinu,“ segir Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri í spjalli við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Hörkumannskapur

„Vegna veðursins hröktumst við fram og til baka og á Digranesflakinu vorum við á meðan versta veðrið gekk yfir. Það er óhætt að segja að veðrið hafi stjórnað miklu í þessum túr eins og reyndar oft áður á þessum árstíma en miðað við allt og allt eru menn ágætlega sáttir við niðurstöðuna. Í túr eins og þessum reynir mikið á áhöfnina og við erum með hörkumannskap hér á Blængi. Það er full ástæða til að nefna þátt vélstjóranna. Vélstjórarnir eru lykilmenn og leysa allskonar verkefni á hverjum degi. Við búum svo vel að vera með mjög hæfa vélstjóra og á svona skipi væru menn illa settir ef þeir væru ekki til staðar. Í þessum túr reyndi verulega á þá eins og svo oft áður og þeir sigruðust á öllum vanda,“ sagði Sigurður Hörður.