Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í síðustu viku að aflokinni fimm vikna veiðiferð. Veiðiferðin hófst 14. júní og millilandað var í Hafnarfirði 6. júlí. Heildaraflinn var 820 tonn og eru verðmæti hans 342 milljónir króna.

Heimasíða Síldarvinnslunnar segir frá en aflinn var blandaður. Mest var af grálúðu eða 170 tonn, 150 tonn af djúpkarfa, 130 tonn af gulllaxi, 120 tonn af ufsa en minna af öðrum tegundum. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt.

„Við byrjuðum hér fyrir austan en héldum síðan í Skeiðarárdýpið og fengum þar gulllax og djúpkarfa. Þá var haldið vestur í leit að ufsa og grálúðu en þar fengum við helst gullkarfa. Við vorum einungis í tvo daga eða svo á Vestfjarðamiðum. Eftir millilöndunina fórum við austur og vorum þar það sem eftir var. Aflinn í túrnum er bland í poka enda styttist í kvótaáramót og verið að hreinsa ýmislegt upp. Helsta tilbreytingin í túrnum tengdist Evrópumóti kvenna í knattspyrnu en reynt var að búa til aðstæður til að áhöfnin gæti fylgst með leikjum íslensku stelpnanna eða hluta þeirra. Okkur fannst íslenska liðið standa sig vel og vorum mjög sáttir við leik þeirra,“ segir Sigurður Hörður í frétt Síldarvinnslunnar.