Landað var úr frystitogaranum Blængi NK í Neskaupstað síðastliðinn föstudag að aflokinni vel heppnaðri veiðiferð að því er segir á vef Síldarvinnslunnar. Aflinn var 722 tonn upp úr sjó að verðmæti 310 milljónir króna.
Aflasamsetningin er sögð hafa verið nokkuð fjölbreytt, mest gullkarfi og ýsa en þó töluvert af þorsk og ufsa.
„Þetta var hefðbundinn uppskrift hjá okkur við byrjuðum að reyna við grálúðu hér fyrir austan og það var aðeins reytingur í henni. Eftir það lá leiðin vestur og vorum við fyrir vestan restina af túrnum með áherslu á ufsann. Ufsinn er oft brellinn og var lítið af honum framan af en komu þó tvö þokkaleg skot. Oftar en ekki var talsvert af þorsk að koma með. Það var gott að geta gripið í karfann og ýsuna. Heilt yfir er mannskapurinn ánægður með túrinn og haustið leggst vel í okkur enda ekki annað hægt þegar vel gengur,“ er haft eftir Sigurði Herði Kristjánssyni skipstjóra.
Gert er ráð fyrir að Blængur landi aftur í lok október.