„Þetta hefði ekki gengið án hennar,“ hefur Dagbladet í Noregi eftir Jóni Kaldal, talsmanni Iceland Wildlife Fund, um þátt tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur í fjármögnun lögsóknar gegn eldisfyrirtækinu Arctic Fish og íslenska ríkinu.

Eins og fram kom á Vísi í gær hefur Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár annars vegar og Veiðifélag Blöndu og Svartár hins vegar höfðað dómsmál gegn ríkinu og Arctic Sea Farm, dótturfélags Arctic Fish, vegna leyfis Matvælastofnunar fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Grunnur lögsóknarinnar er sá að yfir þrjú þúsund eldislaxar sluppu úr kví félagsins sumarið 2023 og sóttu í kjölfarið að hluta til upp í fjölda laxveiðiáa með tilheyrandi hættu á blöndun við villta stofna þar.

„Ætti að vísa málinu frá í heild“

Segir Dagbladet að lögsókn veiðifélaganna sé fjármögnuð af Icelandic Wildlife Fund og að Jón Kaldal staðfesti að þar af hafi Björk gefið rausnarlegt framlag.

Norski eldisrisinn Mowi er eigandi Arctic Fish. Í smáskilaboðum til Dagbladet segir Ola Helge Hjetland, samskiptastjóri Mowi, að Arctic Fish telji að ásakanir veiðifélaganna eigi sér engan grunn. „Það ætti að vísa málinu frá í heild,“ segir Hjetland sem kveður engu við þetta að bæta.

„Þeir eru hræddir. Og mega vera það“

„Okkar öfluga liðskona vekur eðlilega athygli í norskum fjölmiðlum þar sem sjókvíaeldisrisarnir eiga sinn heimavöll. Þeir eru hræddir. Og mega vera það,“ segir í færslu á Facebook síðu Iceland Wildlife Fund þar sem frétt Dagbladet er deilt.

Nánar er fjallað um málið í Dagbladet.