Á félagsfundi í Kletti - félagi smábátaeigenda Ólafsfjörður - Tjörnes - haldinn á Akureyri 1. mars 2012 var m.a. rætt um öryggismál og þá einkum gildi björgunarbúninga í smábátum.
Í gildandi reglum er ekki kveðið á um að skylt sé að vera með björgunarbúninga um borð í smábátum. Aftur á móti er skylt að hafa vinnuflotgalla um borð. Engum dylst að gríðarlegur munur er á þessum tveimur björgunartækjum.
Á fundinum greindi Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS frá fundi hans í innanríkisráðuneytinu nú nýverið. Þar var félaginu kynnt sú skoðun ráðherra að stefna bæri að breytingu á reglugerð þannig að skylt yrði að hafa björgunarbúninga um borð í smábátum. Fyrirhuguð breyting á reglum yrði unnin í nánu samráði við LS og sérfræðinga Siglingastofnunar.
Félagsfundur Kletts lýsti fullum stuðningi við þessi áform.
Frá þessu er skýrt á vef LS.