Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar biðu um helgina komu togarans Bjarts NK til Neskaupstaðar en hann er með tundurdufl um borð.

Að öllum líkindum er um að ræða breskt seguldufl sem Bjartur fékk í trollið er hann var á veiðum í Rósagarðinum á Suðasturlandi sem er þekkt tundurduflasvæði. Þetta svæði var kallað Rósagarðurinn af þýskum kafbátaskipstjórum vegna þeirra fjölda tundurdufla sem var lagt þarna á árunum 1940 – 1943 en það var hluti af aðgerð sem kallaðist „SN aðgerðin“.  Er talið að yfir 90.000 duflum af ýmsum gerðum hafi verið lagt í sjó á þessum tíma.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar munu fara um borð í Bjart, kanna aðstæður og skoða duflið. Verður duflið svo gert öruggt til flutnings og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar munu í framhaldinu eyða því.