Samvinna grásleppukarla og stjórnvalda um friðun landselsins er langt á veg komin. Landselur í meðafla hefur verið helsta hindrun þess að MSC-vottun endurheimtist. Þorlákur Halldórsson, formaður Landssambands smábátasjómanna (LS), segir allt kapp lagt á að sjómennirnir sjálfir hafi forystu um friðanir. Í undirbúningi er lokun svæða þar sem mesta hættan er á að selur komi í netin.

„Það þekkja þetta engir betur en þeir sjálfir. Stjórnvöld eru alveg með á þessu líka. Við vitum ekki annað en að þau muni framfylgja því sem við komum með,“ segir Þorlákur í stuttu spjalli við Fiskifréttir. Hann reiknar fastlega með því að tillögur sjómanna verði teknar upp í reglugerð um grásleppuveiðar, sem væntanleg er áður en langt líður.

„Þetta er lykillinn að því að við fáum vottunina að grásleppuhrognum og bara íslenskan sjávarútveg yfirhöfuð. Annars stefndi það í óefni“ segir Þorlákur. „Við erum búnir að gera mönnum mjög vel grein fyrir stöðunni og hvað er framundan. Menn gera sér allir grein fyrir því hvað málið er alvarlegt.“

LS efndi til fundar í Stykkishólmi í síðustu viku til að ræða málefni grásleppusjómanna. Frummælendur voru, auk Þorláks og Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra LS, þeir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Axel Eyfjörð gæðastjóri hjá Vigni G. Jónssyni á Akranesi og Kristinn Hjálmarsson frá Iceland Responsible FIsheries (ISF).

Meginefni fundarins var að ræða missi MSC-vottunar grásleppuveiða og hvað gera þurfi til að endurheimta hana.

Áhrif á mörkuðum

„Ég hélt að fyrr myndi snjóa í helvíti en ég færi að tala um MSC, en þannig er það bara. Þetta er komið á hvort sem okkur líkar betur eða verr. Staðan hjá okkur er orðin verulega brothætt út af þessu,” sagði Axel Eyfjörð, gæðastjóri hjá Vigni G. Jónssyni.

Sem gæðastjóri fyrirtækisins þekkir hann vel þau áhrif sem missir vottunarinnar hefur haft á mörkuðum erlendis. Vignir G. Jónsson, dótturfyrirtæki Brims hf., kaupir hrogn af grásleppusjómönnum hérlendis, býr til kavíar og selur til útlanda. Kavíarframleiðsla hefur staðið undir 30-40 prósentum af innkomu fyrirtækisins.

Axel upplýsti að fyrir síðustu vertíð hafi fyrirtækið misst stóran hluta af kavíarsamningum sínum vegna þess að MSC-vottun var ekki lengur á vörunni.

„Ég óttast að 70 – 80 prósent af þeim samningum sem eftir eru detti út af borðinu út af vöntuninni á þessari vottun. Þetta heggur mjög stórt skarð reksturinn hjá okkur. Ef ein verslunarkeðja dettur út þá koma allar hinar á eftir. Þetta er virkilega vont mál og mikilvægt að við endurheimtum þessa vottun.”

Auk Íslendinga veiða einungis Norðmenn og Grænlendingar grásleppu, en hvorki Grænlendingar né Norðmenn hafa misst MSC-vottun á sínar veiðar.

„Við erum þeir einu sem ekki eru með vottun en erum þó stærstir í framleiðslu á grásleppuhrognum. En út af þessu erum við komin í þá stöðu að við mætum afgangi hjá kaupendum. Grænland og Noregur ganga fyrir og verðin sem þeir fá eru hærri,” sagði Axel.

Hann var spurður af hverju sjómenn hafi fengið hærra verð á síðustu vertíð en árið áður, og svaraði því til að bæði Grænlendingar og Norðmenn hafi verið að fá enn hærra verð, þannig að líklega hefðu Íslendingar fengið enn hærra verð ef MSC-vottun hefði verið á grásleppuveiðum.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, sagði verðin á síðustu vertíð vissulega hafa verið mjög góð, „en þar spilar inn í að veiðarnar fóru ekkert umfram það sem markaðurinn þurfti. Svo sáum við að Grænlendingar voru að fá meira og það er trúlega út af þessu MSC.”

Allir verða að vera með

Kristinn Hjálmarsson hjá ISF hefur það hlutverk að sækja um vottun fyrir hönd íslenskra útgerðarmanna. Kvöldið fyrir fundinn í Stykkishólmi fékk hann í hendurnar drög að nýrri skýrslu frá vottunarstofunni, og sagði innihaldið hafa komið sér á óvart.

„Ef við gerum allt sem gera þarf og allir standa saman, þá eigum við séns, en það hélt ég að væri ómögulegt þangað til í gærkvöldi.”

Það sagði hann þó velta á því að allir sýni fram á að raunverulega sé verið að grípa til aðgerða sem duga til þess að veiðarnar komi ekki í veg fyrir að landselastofninn nái sér aftur.

„Þetta mun bara virka ef við gerum þetta saman. Það verða allir að vera með.”

Þessi skýrsla frá vottunarstofunni barst ISF 29. janúar. ISF fær nú þrjátíu daga til að gera athugasemdir og að því búnu fær vottunarstofan aftur þrjátíu daga frest til að ganga frá endanlegri skýrslu. Eftir það er hún birt opinberlega og þá geta allir sem vilja sent inn athugasemdir, sem síðan þarf að vinna úr.

Kristinn segir það viðbótarferli geta tekið einhverja mánuði, hálft ár jafnvel, en vottunin muni samtgilda frá þeim degi sem vottunarstofan sendir frá sér lokaskýrsluna, sem líklega yrði fyrir 1. apríl. Það myndi duga fyrir næstu vertíð, þannig að allur afli á henni yrði með MSC-vottun ef allt þetta gengur upp.

Stutt er í að reglurnar fyrir næstu vertíð verði klárar. Kristján Þór ráðherra sagðist vonast til þess að reglugerð yrði tilbúin á næstu dögum.

„Við reynum að lenda þessu í þokkalegri sátt,” sagði hann. Sjálfur hefði hann kosið að hlutdeildarsetja gráseppuveiðar, eins og það er nefnt, og hann sagðist telja meirihluta grásleppuveiðimanna einnig því fylgjandi. Hins vegar hafi ekki náðst um það sátt á þingi.