„Við erum komin með verkstjóra, húsnæði og verkefnalýsingu en málið er enn í vinnslu,“ segir Helgi Hrafn Emilsson, þjónustustjóri Ganta ehf. í Grindavík.
Ganti er eitt þriggja félaga sem urðu til er Þorbirni í Grindavík var skipt upp í fyrra. Fyrirtækið er með togarann Huldu Björnsdóttur GK og landar beint á markað.
Í byrjun júlí var sagt frá áformum Ganta á vef Grindavíkurbæjar. Þar kom einnig fram að alls var 14.924 tonnum landað í Grindavíkurhöfn á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er nær þrefalt meiri afli en á sama tíma í fyrra og 70 prósent af því sem var fyrri hluta árs 2023.
Glæný vinnsla
Varðandi nýju vinnsluna segir Helgi Hrafn að Ganti sé með tvö mismunandi tímaplön. „Annað þeirra lýtur að því að við störtum vinnslu í haust en hitt planið gerir ráð fyrir að við byrjum í janúar,“ segir Helgi Hrafn. Þetta ráðist af nokkrum atriðum sem eigi eftir að ganga frá.
„Þetta er í raun bara glæný vinnsla hjá okkur og er ekki viðbót við einhverja aðra vinnslu. Þetta er léttsaltaður og frystur fiskur sem færi mest á Spánarmarkað,“ segir Helgi Hrafn, sem aðspurður segir andann meðal Grindvíkinga mjög góðan.
„Ég held að það sé bara spenna í fólki. Lífið heldur áfram hérna,“ segir Helgi Hrafn. Bæjarbúar séu síður en svo á þeim buxunum að gefast upp þótt náttúruöflin hafi farið um þá hörðum höndum. „Það þýðir ekkert að vera svartsýnn.“