Það er bjartara framundan hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants á Húsavík eins og öðrum í þessum geira ferðaþjónustu og útgerðar. Árin 2017, 2018 og 2019 störfuðu hjá fyrirtækinu um 50 manns og fyrirtækið gerði út 8-9 báta. Núna er gert ráð fyrir að bátafjöldinn verði fimm á miðju sumri og starfsmannafjöldinn um 20.

Stefán Guðmundsson, eigandi fyrirtækisins, telur víst að síðsumars eða í haust megi reikna með mun meiri umsvifum í takt við fjölgun ferðamanna.

Í eðlilegu ári fóru á bilinu 100-130 þúsund ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík. 2019 buðu fjögur fyrirtæki upp á slíkar ferðir en nú eru þau einungis tvö, þ.e. Gentle Giants og Norðursigling.

„Allan síðasta vetur vorum við ekki nema fjögur hérna á launaskrá í skertu starfshlutfalli og allir á hlutabótaleið. Við skárum allan reksturinn niður og höfum haldið niðri í okkur andanum síðan. Nú er farið að birta yfir þessu en við vitum ekki hversu skært ljósið verður. Menn munu því stíga varfærnislega til jarðar í allri uppbyggingu og mannaráðningum ef það skyldi verða bakslag seinna á árinu. Þetta ár verður aldrei hefðbundið en við vonum að 2022 og 2023 verði allt komið í svipaðan gír og var fyrir faraldurinn,” segir Stefán.

20 ára afmæli

Meðfram hvalaskoðunarferðum er Stefán líka forfallinn grásleppukarl. Hann fæddist 1967 og faðir hans, Guðmundur A. Hólmgeirsson og móðir Helga J. Stefánsdóttir, létu smíða fyrsta bátinn sinn 1971, Aron ÞH og Stefán þvældist í kringum bátinn og útgerðina alveg frá því hann man eftir sér.

„Ég fór fyrst á sjóinn á sumrin með pabba þegar ég var 5 ára í sérsaumuðum sjógalla frá Sjóklæðagerðinni.  Jafnaldrar mínir fóru flestir í sveit.”

Sagan nær þó lengra aftur því langafar Stefáns voru sjómenn  og er greint ágætlega frá þeirri sögu á heimasíðu fyrirtækisins.

„1982 fórum við fyrst að velta fyrir okkur möguleikum innan ferðaþjónustunnar. Hótelið hérna í bænum hafði samband við okkur og bað okkur að sigla með gesti hótelsins á fyrsta hraðfiskibáti Húsavíkur á þeim árum, sem karl faðir minn hafði þá keypt. Farið var í hefðbundna hvalaskoðun, fuglaskoðun og sjóstöng hérna um Skjálfandaflóa. Segja má að þetta sé upphafið. Á þessum árum var þetta stuttur tími yfir sumrin og ég dundaði við þetta fram til 1990 ásamt því að stunda fiskveiðar á skipum fjölskyldunnar. Svo vatt þetta upp á sig og fleiri aðilar fóru að sinna þessum siglingum. Sjóferðir Arnars á Húsavík tóku eiginlega við keflinu í kjölfar okkar upphafs. Norðursigling kom til skjalanna 1995. Þetta fyrirtæki sem ég á í dag, Gentle Giants, er stofnað árið 2001 og á því 20 ára starfsafmæli á þessu ári og við erum afar stolt af uppruna okkar og einstöku starfsfólki sem hefur fylgt okkur alla tíð” segir Stefán

Friðlaus í landi

Þrjár fjölskyldur stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma en Stefáni bauðst fljótlega að kaupa þriðjungshlut og stuttu síðar allt fyrirtækið. Þá hófst tímabilið 15. júní og því lauk 20. ágúst. Gerður var út einn bátur og starfsmennirnir einungis tveir. Svona var þetta fyrstu 3-5  árin og menn voru ávallt að reyna að lengja tímabilið í hvorn enda. Hann segist hafa séð mikil tækifæri í þessum rekstri og trúði því að Ísland yrði innan fáeinna ára sá mikli áfangastaður erlendra ferðamanna sem það síðar varð. Í venjulegu ári, eins og var 2019, hófust hvalaskoðunarferðirnar í mars og þeim lauk ekki fyrr en í endaðan nóvember.

Stefán lauk námi frá Stýrimannaskólanum og lagði stund á nám í rekstrarfræðum til að búa sig undir framtíðina. En hann segist verða að fara reglulega út á sjó til þess að sækja sér andlega næringu.

„Ég verð algjörlega friðlaus ef ég er of lengi í landi. Þá sigli ég út í Flatey og fer þess á milli á grásleppu. Pabbi er fæddur og uppalinn í Flatey og fjölskyldan á sitt hús þar. Þar hef ég dvalið stóran hluta úr ári alla mína ævi. Við leggjum helminginn af eyjunni undir dúntekju. Pabbi og bróðir hans skipta henni á milli sín annað hvert ár. Menn ná sér þar egg í soðið og veiða fisk sér til matar og lífið þar er eins nálægt rótunum og hugsast getur.”

Veiðar munu leggjast af

Stefán segir það rannsóknarefni hvernig verðþróunin á grásleppuafurðum hefur verið á síðustu árum. Fyrir fimmtíu árum hafi kílóverð á grásleppu verið fjórfalt hærra en á þorski. Heimsneyslan hafi verið um 30 þúsund tunnur. Á sama tíma og heimsneysla á sjávarafurðum hefur aukist verulega dragi enn úr neyslu á grásleppuafurðum.

„Eina raunverulega vöruþróunin sem hefur átt sér stað er að menn hafa skipt úr trétunnum yfir í plasttunnur. Og ekki þykir það góð þróun í dag. Núna fáum við um það bil þriðjung af þorskverði fyrir okkar afurðir. Þetta eru ótrúlega sláandi tölur líka þegar horft er til þess að mannkynið hefur fjölgað sér um helming á þessum 50 árum. Meginástæðan fyrir þessu er óvissan í kringum veiðarnar og leti kaupendanna. Þeirra hlutverk er að finna nýja markaði og stunda vöruþróun. Það er vissulega kostnaðarsamt og þegar óvissan um veiðarnar er svona mikil eins og verið hefur síðustu ár, er ekki á vísan að róa, hvorki fyrir okkur né vinnslurnar.  Þess vegna vill yfirgnæfandi meirihluti grásleppusjómanna aðra veiðistýringu með aflamarki eins og reynst hefur vel í öllum hinum tegundunum. Það er með ólíkindum að frumvarp um þetta náist ekki í gegn á Alþingi. Önnur veiðistýring gæti algjörlega bjargað þessum markaði. Það stefnir því allt í það að grásleppuveiðar leggist af á Íslandi ef fram heldur sem horfir í óboðlegum ólympískum veiðum með 100% óvissu fyrir hverja einustu vertíð.”