Varla nokkru sinni hefur verið jafnmikið af þorski og ýsu í Barentshafi og nú. Nýliðun í þorsk- og ýsustofnunum í ár er einnig vel yfir meðallagi, að því er fram kemur í bráðabirgðaniðurstöðum úr vistfræðileiðangri norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Ýsustofninn í Barentshafi var í sögulegu hámarki á árabilinu 2000-2006, en síðan tóku við tvö ár þar sem nýliðun var dálítið undir meðallagi. Hins vegar lítur út fyrir að árgangarnir bæði frá í fyrra og í ár séu metárgangar.
Af loðnustofninum í Barentshafi eru einnig góðar fréttir. Í leiðangrinum mældist meðalstór árgangur af loðnu sem þýðir að loðnan hefur komist yfir seiðastigið án þess að verða étin upp af síldinni eins og stundum gerist. Ungviði loðnunnar fannst fyrst og fremst í mið- og austurhluta Barentshafs.
Norsk-íslenska síldarstofninum vegnar hins vegar ekki eins vel. Bráðabirgðaniðurstöður úr leiðangrinum sýna að nýjasti árgangur síldarinnar sé lélegur og það þýðir að allir árgangar hennar eftir 2004 eru litlir.