Um þessar mundir eru 40 ár frá því að hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson kom nýtt til landsins. Í gegnum árin hefur skipið síðan þjónað fjölþættum rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar og reynst vel og giftusamlega við íslenskar aðstæður, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.
Skipið var smíðað af Schiffbau-Gesellschaft Unterweser skipasmíðastöðinni í Bremerhaven í Þýskaland. Smíðasamningur var undirritaður 11. mars 1969 og skipinu hleypt af stokkunum 27. apríl 1970. Til Reykjavíkur kom það 17. desember 1970. Skipið ber nafn Bjarna Sæmundssonar brautryðjanda í íslenskum haf- og fiskirannsóknum.
Vel var vandað til smíði Bjarna Sæmundssonar og í skipinu var ýmis nýr búnaður sem ekki hafði áður verið settur í íslensk skip. Í því er díselrafstöð sem knýr riðstaumsrafala til orkuþarfa. Með svokölluðum afriðlum er riðstraumnum breytt í jafnstraum sem, leiddur er til vélbúnaðar sem knýr aðalskrúfu skipsins. Þessi búnaður var á sínum tíma alger nýlunda í íslensku skipi og síðan hefur hann aðeins verið settur í eitt annað íslenskt skip, þ.e. hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson sem kom nýtt til landsins árið 2000. Fiskleitartæki eru í sérstöku sónarherbergi og samanstanda af einum sónar og fjórum dýptarmælum sem vinna á mismunandi tíðnum, botnstykki fiskleitartækja eru í sérstakri straumlínulaga kistu til þess að minnka truflanir í veltingi, vélarrúm skipsins er sérstaklega einangrað og vélar og rafalar á sérstöku gúmmíundirlagi til þess að minnka hávaða og titring.
Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknaleiðangur þann 6. janúar 1971. Skipið hefur gengt fjölþættum verkefnum í sambandi við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum. Í upphafi var úthald Bjarna Sæmundssonar rúmir 200 dagar á ári en í seinni tíð hefur það hins vegar verið um 170 dagar á ári. Árið 1985 voru gerðar viðamiklar endurbætur á skipinu, m.a í tengslum við krana á dekki, lagfæringar á brú, tækjaklefa og bergmálstæki. Árið 2003 var síðan skipt um aðalvélar, grandara- og gilsaspil, og móttaka, borðsalur og rannsóknastofur endurnýjaðar. Með þessum síðari endurbótum var gert ráð fyrir að skipið myndi nýtast Hafrannsóknastofnuninni í a.m.k. 10 ár til viðbótar