Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson sem kom hingað til lands árið 1970 hefur verið selt.
„Eins og þetta stefnir þá er hann að fara í þjónustuverkefni erlendis en ég get ekki sagt meira. En við erum auðvitað bara glöð yfir því að hann fari ekki í niðurrif í einhverjum potti. Það er alltaf sárt að horfa á það,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er kaupandinn Holberg Shipping í Noregi sem meðal annars rekur brunnbáta.
Þorsteinn segir söluverðið trúnaðarmál. Kveðst hann ekki kunna að meta hversu gott það sé.
![Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, í brúnni á Bjarna Sæmundssyni. FF Mynd/Eyþór Árnason](http://vb.overcastcdn.com/images/141187.width-500.jpg)
„Fjársýslan er í raun að selja skipið og andvirði sölunnar gengur beint í ríkissjóð. En ég get sagt að þetta á ekki eftir að breyta stöðu ríkissjóðs mikið. Við erum í raun bara fegnust því að losna við það um leið og Þórunn kemur,“ segir Þorsteinn og vísar þar til nýja rannsóknaskipsins Þórunnar Þórðardóttur sem leysa á Bjarna af hólmi.
Þórunn tilbúin í heimferð
Afhenda á Bjarna um næstu mánaðarmót en möguleiki er á frestun ef á þarf að halda sem gæti orðið ef Þórunn Þórðardóttir verður ekki komin í tæka tíð fyrir togararall í mars. Þorsteinn kveðst reyndar á leið utan til Spánar á miðvikudag þar sem hann eigi von á því að nýja skipið verði afhent um helgina eða þá strax í byrjun næstu viku.
![Þórunn Þórðardóttir í Vigo á Spáni.](http://vb.overcastcdn.com/images/129755.width-500.jpg)
„Það eru það fá atriði útistandandi og það er búið að prófa allt sem hægt er að prófa,“ segir Þorsteinn. Á föstudaginn hafi til dæmis verið veiðarfæraprófanir með þeim hluta áhafnarinnar sem ekki sé að sigla Bjarna Sæmundssyni þar sem skipið er nú við sjómælingar fyrir norðan land eins og Fiskifréttir sögðu frá í morgun. Ánægja sé með nýja skipið.
„Maður stundum gleymir sér í þessum smáatriðum sem maður er að pexa yfir og gera allt ómögulegt en auðvitað er þetta frábært skip,“ segir Þorsteinn.
Eftir að Þórunn hefur verið afhend þarf að gera það klárt, taka vistir og olíu. Það segir Þorsteinn væntanlega taka um tvo daga. „Þá ættum við að geta farið að sigla heim sem eftir veðri getur tekið á milli fimm og sjö daga.“