Hafrannsóknastofnun hefur þakkað áhöfn Bjarna Sæmundssonar og rannsóknarfólki fyrir fumlaus og fagleg viðbrögð og vinnubrögð er rannsóknarskipið strandaði við Tálknafjörð 21. september síðastliðinn.
„Margir komu að því að aðstoða fólkið okkar og bjarga skipinu af strandstað. Við erum afar þakklát öllum þeim viðbragðsaðilunum sem tóku þátt í björguninni og að engin slys urðu á fólki,“ segir í færslu á hafro.is.
„Svo heppilega vildi til að skipið komst í slipp í Reykjavík mánudaginn 25. september til viðgerða. Verkinu miðar vel, vinna við viðgerðir er hafin og útvegun varahluta er lokið,“ segir í færslunni.
Sagt er að gert sé fyrir að skipið verði komið aftur í rekstur í næstu viku. „Þá halda verkefni ársins áfram og þau kláruð samkvæmt settri rannsóknaáætlun. Hafrannsóknastofnun var tryggð fyrir þessu tjóni,“ er tekið fram.
Einnig er komið á framfæri sérstökum þökkum frá skipstjóra, áhöfn og rannsóknarfólki Hafrannsóknastofnunar til margra aðila. Eru það aðgerðastjórn Landhelgisgæslunnar, skipstjóri og áhöfn björgunarskipsins Varðar, skipstjóri og áhöfn Fosnafjord, skipstjóri og áhöfn Fosnakongen, skipstjóri og björgunasveit Tálkna, hafnarstjóri Tálknafjarðar, Rauði krossinn í Vestur-Barðastrandarsýslu og starfsfólk sveitafélags Tálknafjarðar.
Sjá fleiri myndir af viðgerðarvinnunni áhafro.is.