Fyrstu kynslóð laxeldisstöðvarinnar Fjarðalax ehf. verður slátrað á Patreksfirði innan skamms en fyrirtækið er með um 600 þúsund laxa í sjókvíum í Tálknafirði og Arnarfirði. Þar með verða til um 15 ný framtíðarstörf á sunnanverðum Vestfjörðum sem auglýst voru á dögunum og margir hafa sýnt áhuga, að því er fram kemur í frétt frá fyrirtækinu.

Í fréttinni er vitnað í Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, sem segist binda miklar vonir við laxeldi á Vestfjörðum sem muni skapa fjölmörg sérhæfð störf á svæðinu. ,,Ég er mjög bjartsýn á að ævintýrið gangi upp, enda vandað til alls undirbúnings. Laxeldið hefur mikla þýðingu fyrir svæðið, til verða fleiri og fjölbreyttari störf og íbúum mun án efa fjölga. Margföldunaráhrifin kunna að verða mikil og fiskeldið því allsherjarinnspýting,“ segir Ásthildur Sturludóttir.