Norska rannsóknaskipið G.O. Sars, sem nú tekur þátt í sameiginlegum mælingum á norsk-íslenska síldarstofninum ásamt rannsóknaskipum frá Íslandi, Færeyjum og ESB, hefur fundið verulegt magn af síld í Noregshafi. Jafnframt hafa ákveðnir síldarárgangar, sem ekki komu fram í eðlilegu magni í mælingunum í fyrra, nú skilað sér. Sérstaklega á þetta við um 2002 árganginn og að hluta 2004 árganginn.
Þetta kemur fram í viðtali við Erling Kåre Stenevik hjá norsku hafrannsóknastofnuninni í Fiskeribladet/Fiskaren. Síldarmælingarnar standa ennþá yfir og verða endanlegar niðurstöður ekki ljósar fyrr en um miðjan júní.
Sem kunnugt er ollu niðurstöður bergmálsmælinganna á norsk-íslensku síldinni í fyrravor verulegum vonbrigðum. Búist var við að síldarstofninn myndi mælast 9-10 milljónir tonna en niðurstaðan var aðeins 6 milljónir tonna. Því var mælingin endurtekin að hluta seinna um sumarið en hún stóð heldur ekki undir væntingum. Þess vegna var ákveðið að skerða kvóta norsk-íslensku síldarinnar um 33% á þessu ári. Þar kom einnig til að ekki var vitað um neina stóra árganga eftir 2004.
Eftir að lokaniðurstöður síldarmælinganna á útbreiðslusvæðinu öllu verða kunnar um miðjan júní verða þær sendar Alþjóðahafrannsóknaráðinu. Það kemur svo í hlut þess að leggja fram veiðiráðgjöf sína fyrir næsta ár.