Norðmenn eru mjög stoltir af saltfiskframleiðslu sinni. Annaðhvert ár halda þeir gæðakeppni og saltfiskur ársins er útnefndur. Keppnin fer fram í júní í ár í Kristiansundi.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á framleiðslunni og minna markaðinn um leið á að meta þennan gæðafisk að verðleikum. Hér er um þurrkaðan saltfisk að ræða (klippfisk) en Íslendingar framleiða að mestu blautverkaðan saltfisk sem kunnugt er.
Dómnefndin er skipuð fagmönnum og færustu kokkum. Framleiðandi á saltfiski ársins 2012 fær svo heiðursskjal að launum og medalíu úr ekta gulli.