Strandveiðimenn óttast að aflahámarkið náist áður en veiðitímabilinu lýkur. Fyrstu vikurnar hefur hefur þörungablómi torveldað veiðarnar fyrir sunnan land.

Strandveiðitímabil ársins hefur farið vel af stað víðast hvar. Að loknum 12 veiðidögum hafa aflast ríflega í 2.200 tonn, sem er nærri 10 prósent meiri afli en á sama tíma í fyrra en veiðinni er þó misskipt eftir svæðum eins og sjá má á töflunni hér að neðan, en hún er unnin upp úr upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda (LS).

Á vef LS segir að nokkuð hafi verið um að strandveiðibátar hafi verið að veiða umfram skammtinn. Fiskistofa hafi birt upplýsingar um þá sem hafi verið hvað ákafastir.

„Í alltof mörgum tilfellum hefur mönnum ekki tekist að passa upp á að afli fari ekki yfir leyfilegan skammt. Þó þessi afli myndi ekki tekjur hjá sjómönnum þá telst hann inn í heildarafla strandveiða og skerðir því hlut þeirra sem eru alltaf réttu megin,“ segir á vef LS.

Veðrið hefur að minnsta kosti leikið við smábátasjómenn á bestu veiðisvæðunum og fiskverðið hefur verið hagstæðara en á síðasta ári, að því er Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda segir.

„Þetta er besta byrjun á strandveiðum frá upphafi, hvað aflabrögð varðar“ segir Arthur. „En það er sérkennilegt hvernig dreifingin á aflanum hefur breyst milli ára. Það er gríðarleg aukning á A-svæðinu en verulegur samdráttur á D-svæði. Ég hef heyrt í körlunum og þeir segja að það sé gríðarlegur þörungablómi í hafinu fyrir Suðurlandi og jafnvel inn í Faxaflóa. Þetta er þekkt fyrirbrigði og skak er ekki vænlegt í miklum þörungablóma. Það er eins og sjórinn hafi verið fylltur af svartri málningu. Þetta gengur samt yfir og þá glaðnar væntanlega á þessum svæðum.“

Tveir fiskar á dag

Veiðarnar fyrir sunnan land hafa verið erfiðar.

„Sumir eru að fá allt niður í tvo fiska á dag, en á sama tíma hafa margir verið að taka skammtinn á örstuttum tíma fyrir vestan. Þessu er óvanalega misskipt af náttúrunnar hendi þetta árið. Það hefur reyndar gengið ágætlega fyrir norðan og betur en oft áður, en á austursvæðinu hefur verið rólegra og karlarnir þurft að glíma við verri tíð en að jafnaði.“

Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda
Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Strandveiðisjómenn hafa áhyggjur af því að góð aflabrögð verði til þess að Fiskistofa loki á veiðarnar áður en sumri lýkur.

„Þetta er það sem við höfum mestar áhyggjur af. Meðan þessi uppstilling á strandveiðikerfinu er óbreytt, þar sem talað er annars vegar í reglugerð um 48 daga yfir tímabilið eða 12 daga í mánuði og hins vegar í lögum um að Fiskistofu beri að stöðva veiðarnar þegar aflahámarkinu er náð, þýðir einfaldlega að þarna eru endalaus átök. Að óbreyttu er kerfið bastarður. Í fyrra gerðist það að aflinn kláraðist og skellt í lás 19. ágúst. Miðað við gengið núna stefnir hraðbyri í mun verri niðurstöðu. Að óbreyttu verða aflaheimildirnar löngu búnar áður en tímabilinu lýkur.“

Arthur furðar sig á því að Alþingi sé ekki búið að kippa þessu í liðinn fyrir löngu.

„Við erum búnir að vera með með þessa kröfu um 48 daga í 3-4 ár en af einhverjum ástæðum er allt stjórnkerfið með hrikalegt harðlífi við að koma þessu í gegn. Mér er þetta óskiljanlegt. Það er varla hægt að ímynda sér hógværari kröfu en að biðja um að fá að fara 48 sinnum á ári í vinnuna. Að við, þessi ríka þjóð sem við erum, með þessar gríðarlegu auðlindir skuli vera að nískupúkast með það hvort skakmenn Íslands veiði einhverjum þúsundunum tonna til eða frá er mér alger ráðgáta. Þessir menn hafa aldrei gengið nálægt neinum fiskistofnum og munu aldrei gera. Það eru aðrar aðstæður sem stýra þeirra veiðiskap, veður, straumar, birta og fiskgengd svo fátt eitt sé talið, á meðan stóru fiskiskipin eru smíðuð í þeim tilgangi að yfirvinna flestar þessar hindranir.“

Hvetjandi þættir

Sitthvað fleira hefur verið að angra smábátamenn, þar á meðal að í síðustu viku var línuívilnun felld niður í þorski og síðan í ufsa.

„Nú ætlar sjávarútvegsráðherra að loka á línuívilnuna það sem eftir lifir árs. Það er afleitt. Ég hef verið talsmaður þess að inn i í fiskveiðistjórnunarkerfi, hvort sem er hérlendis eða annarsstaðar að það eigi að byggja hvetjandi þætti inn í þessa stjórnsýslu til þess að nota umhverfisvæn veiðarfæri. Ef að línuívilnun og strandveiðar eru ekki slík verkfæri þá á ég erfitt með að benda á önnur. Svo fyrir utan það í öllu þessu atvinnuleysi vegna faraldursins, að stjórnvöld skuli ekki horfa í gegnum fingur sér og nota þau tæki sem til eru til þess að halda uppi atvinnu. Efling strandveiðanna og línuívilnunar eru aðferðir sem kosta hið opinbera ekki krónu með gati. Þetta veit sjávarútvegsráðherra mætavel og ég skora á hann að skilja eftir sig það gæfuspor að verða ráðherrann sem tryggði strandveiðarnar og línuívilnuna.“