Árið 2015 var mjög gott fyrir danska fiskimjölsfyrirtækið FF Skagen. Fyrirtækið seldi fiskimjöl og lýsi fyrir tvo milljarða króna (um 38 milljarða ISK) og hagnaðurinn varð 121 milljón (2,3 milljarðar ISK). Framkvæmdastjóri FF Skagen er Íslendingurinn Jóhannes Pálsson.
Þetta kemur fram í frétt á vefnum nordjyske.dk. Hér er um metveltu og methagnað fyrirtækisins að ræða. Verksmiðja fyrirtækisins í Hanstholm tók á móti 188 þúsund tonnum og verksmiðjan í Skagen tók á móti 358 þúsund tonnum. Fram kemur í fréttinni að margar ástæður séu fyrir þessum góða árangri, svo sem mikil framleiðsla og hátt verð á fiskimjöli og lýsi á heimsmörkuðum.