Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE hafa aflað vel að undanförnu. Bergur kom til heimahafnar í Eyjum með fullfermi aðfaranótt sunnudags og Vestmannaey kom í kjölfar hans einnig með fullfermi.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, var sáttur við túrinn. „Við byrjuðum á Víkinni en flúðum þaðan vegna veðurs austur á Ingólfshöfða og kláruðum þar. Það var suðvestan bræla allan túrinn en veiðin var fín. Það var mest þorskur og ýsa sem fékkst að þessu sinni. Að löndun lokinni verður haldið til Akureyrar þar sem farið verður í slipp. Það er hellingsdæmi að halda við skipunum og þetta mun taka um það bil mánuð hjá okkur. Það verður farið í vélarupptekt og síðan verður skipið málað og gert virkilega fínt. Ég held að menn verði bara glaðir að fá gott frí á meðan skipið verður í klössun og við munum væntanlega ekki halda til veiða á ný fyrr en um miðjan júnímánuð,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, lét vel af veiðiferðinni. „Við tókum eina sköfu á Víkinni en héldum síðan á Ingólfshöfðann og þar var fengið í skipið. Aflinn var mest ýsa en það var aðeins þorskur og koli með,“ sagði Egill Guðni.