Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE eru báðir að landa í dag. Bergur landar í Grindavík en Vestmannaey í Vestmannaeyjum.
Á vefsíðu Síldarvinnslunnar er rætt við skipstjórana tvo um veiðiferðina.
„Við fórum út á sunnudag og áttum að taka karfa í túrnum. Haldið var í Skerjadýpið og þar gekk vel að fiska. Það var ágætis nudd þarna. Við vorum svo kallaðir inn og komum til Grindavíkur í gærkvöldi með um 40 tonn. Aflinn fékkst í fimm holum og er hann mest djúpkarfi og síðan dálítið af gullkarfa. Það verður landað í dag og við höldum á ný til veiða í kvöld,“ segir Jón Valgeirsson, skipstjóri á Berg við tíðindamann Síldarvinnslunnar og bætir við að túrinn hafi verið stuttur.
„Aflinn hjá okkur er mest þorskur og ýsa og við erum með fullt skip. Það var farinn hefðbundinn veiðirúntur, byrjað á Pétursey og Vík og síðan veitt á Ingólfshöfða, í Sláturhúsinu og á Mýragrunni,“ segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey. Túrinn hjá þeim hafi gengið ágætlega.
„Það er heldur farið að hægja á ýsuveiðinni eins og oft gerist þegar hausta tekur en þorskveiðin var bara góð. Við förum á ný til veiða á morgun en það fækkar óðum túrunum á þessu kvótaári,“ segir Birgir Þór einnig á svn.is.