Ísfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum eldsnemma í morgun. Rætt var við skipstjórana á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þeir voru báðir sáttir við þessa fyrstu veiðiferð eftir þjóðhátíð. Jón Valgeirsson á Bergey sagði að túrinn hefði verið stuttur og gengið vel. „Við tókum aflann á Víkinni og það var mest vænn þorskur en dálítil ýsa og ufsi með. Þarna var veitt í blíðuveðri og ekki yfir neinu að kvarta,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason skipstjóri á Vestmannaey lét einnig vel af sér. „Við tókum strauið beint á Ingólfshöfðann og vorum þar. Aflinn var langmest ýsa og svolítill þorskur í bland. Menn voru kátir og hressir að aflokinni þjóðhátíð og í reyndinni gekk allt eins og í sögu,” sagði Egill Guðni.
Bæði skip munu halda á ný til veiða síðdegis í dag eða í kvöld.