Losun vegna flugferða og ferða starfsfólks Faxaflóahafna vegna vinnu minnkaði á síðasta ári. Úrgangur minnkaði einnig og endurvinnsluhlutfall jókst verulega.
Þetta kemur fram í fundargerð síðasta stjórnarfundar frá því 8. júní.
Skipakomum til Faxaflóahafna fækkaði um 27% á milli áranna 2019 og 2020 en samkvæmt útblástursbókhaldi ársins losuðu skip sem höfðu viðkomu í höfnum Faxaflóahafna 42.700 tonn af koltvíoxíði (CO2), sem er 24% samdráttur, og 31,4 tonn af brennisteinsdíoxíði (SO2), sem er 73% samdráttur á milli ára. Heildarlosun CO2 frá eigin rekstri jókst um 3% og var 1.072 tonn CO2. Kolefnisbinding með skógrækt og endurheimt votlendis jókst og var 855 tonn.
„Nettólosun því 217 tonn en gerður verður samningur um bindingu við þriðja aðila á móti því,“ segir í fundargerð.
Nýr bílafloti keyptur
Í drögum að orkuskiptaáætlun Faxaflóahafna sem kynnt var af hafnarstjóra á fundinum kemur fram að fyrirtækið mun ekki kaupa fleiri farartæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og skipta núverandi flota að mestu út á þremur árum.
Á árinu 2020 notuðu dráttarbátar 87% af því eldsneyti sem Faxaflóahafnir notuðu.
„Verið er að setja kerfi í alla dráttarbáta fyrirtækisins sem símæla eyðslu. Lögð verður áhersla á stýringu á afli og sett verða markmið um minni eyðslu. Tækifæri til íblöndunar eða annarra valkosta af eldsneyti verða skoðuð,“ segir í fundargerð.