Miklar breytingar hafa orðið á hrygningarstofni þorsks hér við land síðustu áratugina. Þetta má lesa út úr gögnum sem safnað hefur verið í árlegu netaralli Hafrannsóknastofnunar á árunum 1996 til 2016. Jón Sólmundsson, sérfræðingur á Hafró, kynnti þessar breytingar á fundi í síðustu viku. Ítarleg umfjöllun um erindi Jóns er í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.
Afli í netaralli hefur aukist á flestum hrygningarsvæðum síðasta áratug, mest á vestursvæðinu, í Breiðafirði og Faxaflóa. Þar er fyrst og fremst um hraðvaxta þorsk að ræða. Hins vegar hefur veiðin hrunið djúpt á suðaustursvæði, í kantinum austur af Vestmannaeyjum. Hér áður fyrr óx þorskur fyrir norðan mun hægar en fyrir sunnan. Síðustu árin hefur vaxtarhraði þorsks á norðursvæðinu verið að nálgast suðursvæðið og skýrist það væntanlega af hlýnun sjávar fyrir norðan.
Jón skoðaði sérstaklega breytingar á hlutfalli stórra hrygna í afla í netaralli. Um er að ræða hrygnur sem eru 100 sentímetrar eða lengri og auk þess mjög holdmiklar, svokallaðar beljur. Hann lék sér að því að búa til „beljuvísitöluna“ fyrir einstök svæði. „Ég tók þessa vísitölu saman vegna þess að beljurnar eru taldar mjög þýðingarmiklar í hrygningunni. Frá þeim koma stærstu og lífvænlegustu eggin. Víða hefur þessi vísitala hækkað. Sérstaklega hefur beljuvísitalan rokið upp fyrir vestan land,“ sagði Jón.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.