Smábátaútgerðin Sólrún ehf. á Árskógssandi er að skipta út tveimur bátum sem reru með landbeitta línu, annar var seldur og fór upp í bát með beitningarvél en netabátur kemur í stað hins. Net og beitningarvél leysa þannig landbeitninguna af hólmi. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.

Fyrr í haust keypti Sólrún ehf. netabátinn Nunna EA frá Grímsey og fer hann á veiðar eftir áramótin. Nunni er smábátur með aflamark, um 14 metrar að lengd og um 26 brúttótonn. Báturinn mun fá nafnið Sólrún EA. Nýlega festi Sólrún ehf. svo kaup á Hópsnesi GK sem er um 15 brúttótonna yfirbyggður krókaaflamarkbátur með beitningarvél. Sá bátur hefur fengið nafnið Særún EA.

Pétur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sólrúnar ehf., sagði í samtali við Fiskifréttir að hér væri fyrst og fremst um skipulagsbreytingar í útgerðinni að ræða vegna ytri aðstæðna. „Frá árinu 2007 höfum við gert út tvo 12 tonna krókaaflamarksbáta með landbeitningu, Særúnu EA og Sólrúnu EA. Særún gekk upp í kaupin á Hópsnesinu en Sólrún verður seld. Það verður að segjast eins og er að síðustu vetur hér fyrir norðan land hafa verið mjög erfiðir fyrir landbeitningu. Síðasta vetur keyrði um þverbak. Þá kom loðna í byrjun febrúar og hún var fram á vor. Fiskurinn hafði því nóg æti og beit síður á krókana. Jafnframt hefur verið þrengt að landbeitningu. Þótt línuívilnun hafi verið hækkuð í 20% fyrir nokkrum árum er það þannig að ýsukvótinn er alltaf að minnka. Möguleikinn til að nýta línuívilnun hefur því stórlega minnkað. Ekki bætti úr skák að sjávarútvegsráðherra tók í haust nánast helminginn úr ýsupottinum fyrir línuívilnun. Það var kannski kornið sem fyllti mælinn,“ sagði Pétur.

Um sjö beitningarmenn missa vinnuna við þessar skipulagsbreytingar. Pétur sagði að þeir væru að leita að störfum á svæðinu í kring og væri þokkalegt útlit með það.