Uppsjávarveiðiskip Síldarvinnslunnar - Beitir NK – kom til Neskaupstaðar með kolmunnafarm úr færeysku lögsögunni síðastliðinn sunndag. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema fyrir að upp úr skipinu komu hvorki meira né minna en 3.201 tonn.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins en líklega er þetta stærsti farmur sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.

Hafa skal í huga að skipið kom með aflann kældan en án kælingar hefði farmurinn orðið stærri.

Beitir hefur áður fært að landi yfir 3.000 tonn, en stærsti kolmunnafarmur skipsins á undan þessum var 3.123 tonn og var honum landað í Neskaupstað í aprílmánuði.