Skip Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja landa loðnu víða þessa dagana. Á heimasíðu fyrirtækisins segir frá því að Barði NK landaði á Akranesi. Polar Amaroq landaði í Vestmannaeyjum á laugardag og Polar Ammasak hélt til Færeyja með fullfermi.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar á sunnudag með 2655 tonn og fór hluti af þeim afla til manneldisvinnslu.

Lengst allra sigldi þó Beitir NK með afla, en hann landaði 3061 tonni í Vedde í nágrenni Álasunds í Noregi. Þetta mun vera stærsti loðnufarmur sem komið hefur til löndunar í Noregi, að því er kemur fram í umfjöllun Síldarvinnslunnar. Þar segir:

Í frétt á heimasíðu Norges sildesalgslag kemur fram að loðnufarmurinn sem Beitir NK landaði í Vedde sé hinn stærsti sem borist hefur til norskrar hafnar.

Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, í morgun og spurði hvort honum þætti þetta ekki athyglisverð frétt. “Jú, það verður að segjast. Við gerðum okkur enga grein fyrir því að við værum að landa þarna stærsta loðnufarmi sem borist hefði til Noregs. Nú skil ég heillaóskir sem ég fékk sendar frá norskum skipstjóra og vini mínum í morgun. Það gekk afar vel að landa þarna í Vedde. Verksmiðjan er búin íslenskum tækjum og verksmiðjustjórinn er íslenskur. Núna erum við staddir í leiðindabrælu um 190 mílur norðaustur af Færeyjum og erum á leiðinni á loðnumiðin. Við náum væntanlega inn í trollhólfið í kvöld. Annars er allt gott að frétta,” segir Tómas.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að fyrr í vikunni landaði Börkur NK á Seyðisfirði stærsta loðnufarmi sem landað hefur verið hér á landi. Sá farmur var 3.211 tonn.

Að sögn Herberts Jónssonar stýrimanns gekk vel að landa úr skipinu og lagði það af stað á miðin á ný klukkan fimm í gærmorgun. Getur Beitir væntanlega hafið veiðar í fyrramálið.

Þá segir í fréttinni að fjögur norsk loðnuskip eru komin á miðin norðaustur af landinu en hafa lítið fengið enn sem komið er. Norsku skipin veiða í nót og hefur loðnan staðið of djúpt til að unnt sé að ná henni í nótina.