Verið er að landa 1.100 tonnum af makríl úr Beiti NK í Neskaupstað. Makríllinn er ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að vinnsla hafi gengið tiltölulega vel á vertíðinni.

„Við erum núna að vinna fremur stóran fisk en vissulega er meira krefjandi að halda vinnslunni samfelldri þegar veitt er úti í Smugu, 470-480 mílur frá landinu. Það var miklu auðveldara að halda samfelldri vinnslu þegar veiðin fór fram í íslenskri lögsögu í júlímánuði. Samstarf veiðiskipa skiptir öllu máli við þessar aðstæður. Skip Síldarvinnslunnar og Samherja hafa samstarf og afla allra skipa á miðunum er hverju sinni dælt í eitt þeirra og þannig tryggt að aflinn sem berst að landi sé eins ferskur og frekast er unnt. Eftir að löndun úr Beiti lýkur sýnist mér að eftir sé tæplega 6.000 tonn af kvóta skipanna. Það má gera ráð fyrir að makríll verði unninn hér í fiskiðjuverinu út mánuðinn eða svo, en í fyrra fengum við síðasta farminn þann 21. ágúst,” sagði Oddur.