Nú er heimaalinn tilapia eða beitarfiskur í fyrsta sinn á boðstólum í breskum verslunum. Fyrirtækið The Fish Co. elur fiskinn í fjórum eldisstöðvum í Yorkshire og Lincolnshire á Norður-Englandi og er hann boðinn til sölu verslunum stórmarkaðskeðjunnar Tesco.

Sem kunnugt er er beitarfiskur mjög algengur eldisfiskur víða um heim og seldur í samkeppni við hvítfisk úr sjó en þetta er í fyrsta sinn sem hann er alinn í Bretlandi. Framleiðslan nemur 700 tonnum á ári. Haft er eftir talsmanni fyrirtækisins að aukinn markaður sé fyrir fisk sem framleiddur sé á sjálfbæran og heilbrigðan hátt án hormónagjafar eða annarra utanaðkomandi efna. Jafnframt geti fyrirtækið tryggt viðskiptavinum sínum að þeir fái vöruna 24-36 tímum eftir slátrun. Frá þessu er skýrt á fréttavefnum seafoodsource.com.

Því má bæta við að beitafiskur er aðallega alinn í Asíu og í Suður- og Norður-Ameríku og framleiðslan á heimsvísu er talin nema hátt á aðra milljón tonna.