Mannbjörg varð upp úr hádegi þegar eldur kom upp í 8 metra löngum fiskibáti um 4 sjómílur SA af Arnarstapa, að því er fram kemur í frétt frá Landhelgisgæslunni.
Einn skipverji var um borð og var honum bjargað af nærliggjandi fiskibáti. Björg, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Rifi var einnig kölluð út til aðstoðar ef þörf yrði á.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send ásamt slökkviliðsmönnum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á vettvang en fiskibáturinn logaði stafna á milli og talið var að hann muni sökkva.
Þyrlan flutti skipverjann til Reykjavíkur til læknisskoðunar á spítala en hann brenndist ekki.