Uppbygging lúðustofnsins er langtímaverkefni og ólíklegt að umtalsverður bati náist fyrr en eftir 5-10 ár. Vegna hægs vaxtar lúðunnar og þess hversu seint hún verður kynþroska kemur árangur friðunar ekki í ljós fyrr en að mörgum árum liðnum.

Svo segir í skýrslu sem Hafrannsóknastofnun hefur gert að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hafrannsóknastofnun leggur til að áfram verði unnið að aðgerðum til verndar lúðustofninum og reglugerð um bann við veiðum á lúðu verði í gildi þar til merki um verulegan bata í lúðustofninum við Ísland komi fram.

Í greinagerð stofnunarinnar er fjallað um útbreiðslu og líffræði lúðunnar, veiðar á henni, ástand stofnsins, vernd og viðreisn lúðu í Norður Atlantshafi, rannsóknir á afdrifum lúðu sem er sleppt o.fl. Þá er fjallað um merkingar Hafrannsóknastofnunar á lúðu sem ráðist hefur verið í til að auka þekkingu á stofninum og áhrif veiðibannsins.