Vinnuhópur innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) vill auka þorskkvótann í Barentshafi á úr 894 þús. tonnum í ár upp í 983 þús. tonn á því næsta en ráðgefandi nefnd ICES er íhaldssamari. Hún leggur til að kvótinn verði minnkaður og fari í 805 þúsund tonn og er það jafnframt opinber ráðgjöf ICES. Þetta kemur fram í Fiskifréttum í dag og vísað er í grein í Fiskeribladet/Fiskaren.
Vinnuhópurinn byggir mat sitt á því að skýr merki þess hafi fundist að meira sé af eldra þorski í þorskstofninum en áður sem skekki myndina þegar hefðbundin spálíkön eru notuð við útreikninga á stofnstærð. Þetta mat kemur heim og saman við aflasamsetningu þorsks á síðustu vertíð þar sem eldri þorskur var meira áberandi í aflanum en oft áður.
Í raun munar meira á mati ráðgjafanefndar ICES og vinnuhópsins en fram kemur í framangreindum tillögum. Hins vegar er tekið mið af aflareglu í þorski sem gerir ráð fyrir að ekki megi auka né minnka þorskkvótann í Barentshafi um meira en 10% á milli ára.
Nú er það í höndum norsk-rússnesku fiskveiðinefndarinnar, sem kemur saman í næstu viku, að ákveða þorskkvótann og telur Fiskeribladet/Fiskaren líklegt að hún aðhyllist frekar álit vinnuhópsins sem leggur til 10% aukningu.