Alls hafa íslensk skip veitt um 75 þúsund tonn af þorski í Barentshafi á árunum 2000-2010 sem hafa gefið um 19 milljarða króna í aflaverðmæti, samkvæmt samantekt Fiskifrétta.
Snemma á tíunda áratug síðustu aldar hófu íslensk skip umtalsverðar veiðar á þorski á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi. Þegar best lét veiddu þau um 37 þúsund tonn árið 1994. Þessar veiðar ollu hatrömmum deilum milli Íslands og Noregs sem enduðu með Smugusamningnum svonefnda milli Íslands, Noregs og Rússlands árið 1999.
Þorskkvóti íslenskra skipa í Barentshafi hefur farið stigvaxandi. Í ár má gera ráð fyrir að aflinn verði tæp 12.800 tonn ef allur kvótinn næst en veiðar í rússnesku lögsögunni standa ennþá yfir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.