Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur tilkynnt veiðiráðgjöf á nytjastofnum í Barentshafi árið 2011.

Lagt er til að veidd verði 703 þúsund tonn af þorski á næsta ári sem er 16% aukning miðað við kvóta ársins 2010 en hann er 607 þúsund tonn. Þess má geta að ICEC lagði til að veiðin yrði minni í ár, eða 576 þúsund tonn.

ICES leggur til að veidd verði 303 tonn af ýsu í Barentshafi árið 2011 sem er 25% aukning miðað við kvótann í ár sem er 243 þúsund tonn.

Norðmenn og Rússar ákveða sameiginlega þorskkvóta í Barentshafi. Íslendingar mega veiða 7.650 tonn af þorski í Barentshafi í ár. Ef farið verður að ráðgjöf ICES má gera ráð fyrir að þorskkvóti Íslendinga í Barentshafi aukist um 16% á næsta ári, eða um 1.225 tonn.