Norsk-rússneska fiskveiðinefndin hefur ákveðið að þorskkvótinn í Barentshafi verði 894.000 tonn á næsta ári. Þetta er sami kvóti og á yfirstandandi ári.

Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði lagt til 805.000 tonn fyrir næsta ár en nefndin ákvað að fara hærra m.a. á þeirri forsendu að loðnan, sem er mikilvægasta fæða þorsksins, stendur illa um þessar mundir. Staðfest var að engar loðnuveiðar yrðu leyfðar í Barentshafi á næsta ári.

Ýsukvótinn var ákveðinn 244.000 tonn, grálúðukvótinn 22.000 tonn og úthafskarfakvótinn 30.000 tonn.

Af heildarþorskkvótanum fær Noregur 401.000 tonn og eru þá meðtalin 21.000 tonn af strandþorski og 7.000 tonna rannsóknakvóti.