Þorskstofninn í Barentshafi er í hæstu hæðum og útlitið bjart. Eins og fram kom hér á vefnum fyrir helgina leggur Alþjóðahafrannsóknaráðið til að hámarksaflinn á næsta ári verði 993.000 tonn sem er 53.000 tonnum meira en veiðiráðgjöfin fyrir árið í ár hljóðaði upp á. Þetta gerist þrátt fyrir að norsk og rússnesk yfirvöld hafi ákveðið kvóta upp á eina milljón tonna fyrir yfirstandandi ári.
Samkvæmt upplýsingum Alþjóðahafrannsóknaráðsins er hrygningarstofn þorsks í Barentshafi sá stærsti síðan árið 1946 og heildarstofninn álíka stór og hann var á tímabilinu 1946-1955.
Vísindamenn segja að þessa góðu útkomu megi þakka miklu fæðuframboð í Barentshafi og markvissri fiskveiðistjórnun á liðnum árum. Hlýrra hafi verið í hafinu en fyrr og þar með hafi kjörsvæði þorsksins stækkað.